top of page
Lake

Hópastarf

Fjölbreytt hópastarf er í Grófinni og erum við alltaf að leita af góðum hugmyndum. Lagt er upp úr því að allir Grófarfélagar hafi tækifæri til þess að nýta sér hópana til sjálfseflingar og geðræktar. Allir hóparnir eru opnir nema annað sé sérstaklega tekið fram á dagskránni. Tveir hópar Grófarinnar hafa verið óbreyttir frá upphafi; umhyggjuhópur - þar sem einstaklingar fá tækifæri til þess að tjá sig um daginn og veginn, hvernig gengur og hvað má betur fara án þess að þurfa fá eða deila ráðum - og Kjarnafundir. Þeir eru húsfundir þar sem þátttakendum Grófarinnar gefst færi á að kjósa um málefni sem snúa að innra starfinu okkar og koma með hugmyndir um viðburði, dagskrárliði og fleira. Mikilvægt er að raddir allra fái að heyrast. Þó fundirnir fjalli um ólík málefni eiga þeir það allir sameiginlegt að þjálfa fólk í að tjá sig og veita fólki frelsi til þess að tjá sig. Hægt er að lesa frekar um jafningjanálgun á síðunni. Sjá má dagskrá til að komast að því hvenær fundirnir eru.

Af hverju hópastarf?

Hópastarf getur haft margvísleg jákvæð og heilandi áhrif fyrir þátttakendurnar. Meðal annars læra meðlimir félagsleg samskipti og félagslegan sjálfsskilning, það er að segja um þá mynd sem manneskjan hefur af sér sjálfri og mótast hún í samskiptum við aðra. Hópastarf gerir þátttakendum kleift að fá tilfinningalegan stuðning og hefur félagsleg tenging góð áhrif á heilsu og velferð. Það er mikilvægt að þau sem taka þátt fái að upplifa að þau geti haft áhrif og hjálpað öðrum á sama tíma og þau fá hjálp sjálf. Þannig verða hóparnir að vettvangi fyrir gagnkvæma aðstoð. Að vera í hóp með öðrum sem hafa svipuð markmið um að ná bata veitir einstaklingnum tækifæri til að læra nýja hegðun og læra á sjálfan sig, en getur einnig veitt honum von.

     Jafningjastuðningshópar ganga út frá grundvallarforsendum notendamiðaðrar þjónustu (e. person centred) og inniheldur hún meðal annars skilyrðislausa viðurkenningu, traust, samkennd og virðingu, og samvinnu og val. Hægt er að lesa frekar um jafningjanálgun á síðunni. Sjá má dagskrá til að komast að því hvenær fundirnir eru. Einnig er hægt að lesa um lýsingu dagskrárliða til að sjá hvað gæti virkað fyrir þig. Farsælt hópastarf verður til í samspili milli þátttakenda - útkoman veltur því ekki eingöngu á hópstjóranum.

Hvernig hópastarf?

Í Grófinni eru þrjár tegundir hópa; spjallhópar, formfastir hópar og virknihópar. Spjallhópar eru mest megnis óformlegri umræðuhópar þar sem einstaklingar fá að tjá sig frjálslega og það er ekki endilega neitt sérstakt þema sem þeim fylgir. Formfastir hópar eru einnig oft umræðuhópar en stundum eru lögð fyrir verkefni. Hóparnir eru formfastir á þann hátt að alltaf er byrjað á því að lesa upp inngang sem inniber reglur og tilgang hópsins og hafa fyrirfram ákveðið fundarform. Dæmi um formfastan hóp er til dæmis Geðræktin þar sem unnið er eftir hugmyndafræði Grófarinnar, valdeflingu og batamódeli. Virknihópar snúast um að efla virkni einstaklinga og jafnvel fara aðeins út fyrir rammann. Þeir hafa ekki fast form en hafa lýsingu á verkefnum hverju sinni. Í þessu felst meðal annars hvers konar líkamsrækt eða hreyfing, Virknihornið og viðburðir Unghuga.

bottom of page