top of page
Writer's pictureElín Ósk

Hipp hipp, húrra!

Pistillinn var skrifaður í tilefni afmæli Grófarinnar Afmæli eru kjörin tímamót til að stoppa og staldra aðeins við. Jú, þau eru líka fullkomin tækifæri til að skella í afmælisköku. En afmæli eru sömuleiðis tilvalin til að nema staðar, rifja upp gamla tíma og íhuga hvert skal stefna.


Grófin á 10 ára stórafmæli og þó ég hafi ekki verið meðlimur öll þessi ár, þá er ég afar þakklát fyrir þau ár sem ég hef verið hluti af þessu samfélagi. Við Akureyringar erum ótrúlega lánsöm að geta leitað í Grófina sem er eins og vin í eyðimörk. Heilbrigðiskerfið hefur ef til vill útbúið vatnsbrunna hér og þar en notkun á þeim fylgja ákveðin skilyrði. Þú færð til að mynda bara ákveðinn kvóta. Það er alltaf ákveðin klukka. Þess vegna er svo dýrmætt að geta leitað í þessa vin, sem Grófin er, á okkar forsendum og nýtt hana til að rækta eigin heilsu. Það krefst aga að sinna eigin heilsu og vissulega væri auðveldara að fá heilbrigðisstarfsmann til að sækja "vatnið" með einhvers konar aðgerð, meðferð eða lyfjum. Það getur hjálpað upp að vissu marki en við sjálf erum hins vegar lykillinn í eigin geðheilsu. Ekkert gerist nema við sjálf séum virk í ferlinu.

Virkni er einmitt einn af stóru steinunum í starfi Grófarinnar. Að koma sér út úr húsi, hitta fólk og taka þátt í hópastarfi til að rækta geðheilsuna. Hvort sem um er að ræða umræðu-, virkni- eða hreyfihópa, enda er geðrækt svo ótrúlega fjölbreytt. Við þurfum hins vegar að muna að alveg eins og með líkamsræktina, þá eru bestar líkur á árangri með reglulegri ástundun. Fyrir utan að koma sér upp góðri rútínu og auka virkni, þá er hægt að nýta Grófina og láta til sín taka. Hvort sem það er að auka álags- og vinnuþol með því að taka umsjónarvaktir, hjálpa til við skipulagningu á viðburðum og taka að sér dagskrárliði. Eða þá skapa tengingar í samfélagið með þau markmið að auka þekkingu á geðheilbrigði, opna enn betur umræðuna og draga úr fordómum. Vissulega hefur margt jákvætt gerst á síðustu árum en það má samt alltaf gera betur. Enn er langt í land að gera geðræktina að jafn sjálfsögðum hlut og líkamsrækt. Til að mynda er ekkert vafamál að líkamsræktarstöðvar á landinu eru töluvert fleiri en geðræktarstöðvar.


Þess vegna erum við Akureyringar jú svona heppin. En oft veit maður ekki hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Og ég veit ekki með ykkur en mig langar alls ekki að missa Grófina til að finna hversu mikið hún gerir fyrir mig. Það er ekki auðvelt að reka frjáls félagasamtök þar sem öll þjónusta er gjaldfrjáls fyrir notendur. En það er kraftur í fjöldanum og saman getum við staðið vörð um batasamfélagið sem Grófin er. Því fleiri virkir Grófarfélagar, því sterkari stöndum við af okkur hvaða storm sem er.


Það er ekki ætlunin að lesa yfir ykkur öllum heldur frekar að hvetja ykkur til að nýta þessa vin í eyðimörkinni sem við lifum í. Ekki nóg með að geta vökvað sálina með því að stunda Grófina, heldur erum við líka að vinna gegn þeirri félagslegri einangrun þar sem hver og einn er í sínu horni. Þannig njótum kvöldsins. Njótum þess að vera með hvort öðru. Til hamingju Grófin með þín tíu ár. Og vonandi er þetta einungis fyrsti tugur þinn af mörgum. Hipp hipp húrra!

63 views0 comments

Kommentare


bottom of page