Sambönd koma í öllum stærðum og gerðum. Mikilvæg vitundarvakning hefur orðið í samfélaginu síðustu ár og þykir mér magnað hve góð samstaðan hefur almennt verið í umræðunni. Sambönd eru þó alls konar og mér finnst vera vöntun á umræðu og áherslu á það samband sem einkennir okkur einna helst; sambandið við okkur sjálf. Við erum mikilvægustu manneskjurnar í okkar lífi, og það er krítískt að hlúa að því sambandi.
Lengi var ég sannfærð um að þetta samband væri í rauninni ekki til, að ég væri dæmd aukaleikona í lífi annarra og þótti ég vera sjálfselsk ef ég skyldi voga mér að setja öðrum mörk í því skyni að það væri betra fyrir mig. Ég var viss um að þeir sem kæmu verst fram við mig hefðu rétt á því og allir sem voru góðir við mig voru það einungis vegna vorkunnar. Auðvitað viðurkenndi ég ekki þá að það væri ákveðin sjálfhverfa að finnast maður vera rót tilgangsleysisins. Ég átti, og - til að vera alveg hreinskilin - á enn í erfiðu sambandi við sjálfa mig. Munurinn á mér núna og þá er sá að ég átta mig á því og legg mig alla fram við að breyta því hægt og rólega, og ég get með sanni sagt að þetta er eitt erfiðasta verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Ég hef eytt allt of miklum tíma og orku í að reyna að þóknast öðrum til fá einhvers konar viðurkenningu frá þeim, sannfærð um að viðurkenning annarra skipti meira máli en mín eigin. Að leita eftir samböndum við annað fólk til þess eins að fá viðurkenningu á sjálfum sér gegn því að stroka út mörkin gagnvart þeim eru viðskipti, ekki samband. Ef einstaklingar láta sig hverfa um leið og þú setur þeim mörk er það ekki þitt vandamál, heldur þeirra.
Það eru einna helst tvær staðhæfingar sem hafa hjálpað mér á þessu ferðalagi;
1) það kemur mér í rauninni ekki við hvað öðrum finnst um mig
2) gullna reglan virkar á öll sambönd og á alla vegu. Ég þarf að læra að koma fram við sjálfa mig eins og ég kem fram við aðra. Ég væri ansi fljót að missa allt yndislega fólkið sem ég hef í kringum mig ef ég færi að tala við þau eins og ég geri við sjálfa mig.
Einkenni heilbrigðs sjálfsambands eru í grunninn þau sömu og í öllum öðrum samböndum;
Virðing: Þú þarft að bera virðingu fyrir þér áður en þú krefst hennar frá öðrum. Þetta felst fyrst og fremst í að virða þín eigin mörk og ekki ætlast til of mikils af sjálfri þér, en á sama tíma að vanmeta þig ekki.
Heiðarleiki og hreinskilni: Við könnumst líklega flest við að fara í einhvern vandamálafeluleik gagnvart sjálfum okkur, en það er mikilvægt í öllum samböndum að vera hreinskilin.
Opin samskipti: opin samskipti felast ekki eingöngu í að vera hreinskilinn heldur líka í því að hlusta bæði á hug og líkama. Íslenska mottóið “að harka af sér” eru einkunnarorð þess að hunsa þarfir sínar og legg ég til með að útrýma þeirri setningu úr orðabókinni okkar. Sérhlífni er ekki kostur, en að slíta sjálfum sér algjörlega út er heldur ekki eftirsóknarvert og alls ekki merki um styrk. Við erum ekki skór. Við getum ekki bara keypt nýtt eintak þegar það gamla er orðið of lúið. Við þurfum að læra hvað það er sem lætur okkur líða illa, og hvað lætur okkur líða vel, hvað er gott fyrir mann og hvað er slæmt fyrir mann. Og auðvitað muninn þar á.
Traust og stuðningur: Vertu þinn aðal aðdáandi! Eitt besta ráð sem ég hef fengið í þeim efnum er Bestu-vinkonu-röddin. Hvað myndi besta vinkona mín segja við mig? Hún myndi segja eitthvað uppbyggilegt og hvetjandi og hrósa mér fyrir þann árangur sem ég hef náð í stað þess að fókusa á það sem mér hefur ekki tekist að gera. Auðvitað er hægt að skipta þessu út fyrir maka eða foreldri eða hvern sem þið viljið svo lengi sem það er uppbyggileg rödd, en þetta er góð leið til að skipta út neikvæðu röddinni í höfðinu á manni. Einnig er mikilvægt að læra að treysta sjálfum sér og ekki bregðast því trausti.
Endilega takið ykkur tíma í að átta ykkur í hvers konar sambandi þið eigið við sjálf ykkur og hlúið að því. Það gerir gæfu muninn. Lærum að elska sjálf okkur eins og við erum áður en við förum í að reyna að breyta okkur og bæta, því ef við elskum okkur ekki eins og við erum núna, gerum við það aldrei. Eins og Julie Hanks segir: “heilbrigt sjálfs-samband er sá eiginleiki að kunna að meta sjálfa sig sem manneskju, og samþykkja styrkleika sína og veikleika.”
Comments