top of page
grofin

Björgunarhringur

Björgunarhringur

Haustið 2017 brann ég út, andlega og líkamlega.

Ég hafði verið greind þunglynd fyrir tæpum 30 árum og hafði lifað góðu lífi með lyfjagjöf og geðhjálp, þar til ég brotnaði og gat ekki meir.

Eftir hið "svokallaða hrun" hafði ég misst íbúð og vinnu árið 2009. Drengurinn minn, 6 ára missti hárið á tímabili. Árið 2012 fékk ég loks vinnu á Patreksfirði og þar bjuggum við sonurinn í góð 6 ár.

Seinasta haust, árið 2017 gat ég ekki meir! Þrátt fyrir góðan vilja hjá heilsugæslunni á Patró, þá var það ekki nóg. Til að gera langa sögu stutta, þá átti ég val um að flytja á höfuðborgarsvæðið eða til Akureyrar, til að fá geðheilbrigðisþjónustu.

Þegar ég flutti til Akureyrar varð ég í neyð minni að bakka Hjallhálsinn á flutningabíl frá Bílaleigu Akureyrar, því þar er ennþá drulluvegur og geri aðrir betur!

Fyrsta desember vorum við flutt til Akureyrar, ég man varla vetrarmánuðina, nema að veikburða fór ég að heimsækja Grófina. Björgunarhringurinn minn var geðverndarmiðstöðin Grófin. Ég las grein eftir Eymund Eymundsson um starfsemi Grófarinnar á netinu og var strax vel tekið þegar ég mætti þar fárveik.

Það er algert jafningjasamfélag í Grófinni og þar fékk ég upplýsingar og þann stuðning sem ég þurfti, sem aðkomumanneskja frá Vestfjörðum.

Ég vil vitna í vers eftir Úlfar Ragnarsson, um leið og ég þakka Grófarstarfseminni frá hjartans rótum og hvet fólk með geðraskanir að leita til þeirra. TAKK.

Ég veit ekki hvort þú hefur

huga þinn við það fest,

að fegursta gjöf sem þú gefur,

er gjöfin sem varla sést.

Anna Benkovic


47 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page